Móðurást: Oddný

Borg bróður míns

Oddný Þorleifsdóttir, fædd 1864, segir sögu sína hálfri annarri öld síðar. Oddný elst upp í Bræðratungu, í hópi hörkuduglegra og glaðsinna systkina, stundum þykir sveitungunum meira að segja að gleðin keyri úr hófi á bænum. Lífsbaráttan er hörð og fólk er á eilífum þönum undan dauðanum, sem vægðarlaus hremmir þau viðkvæmustu í hópnum. Gleraugu Oddnýjar festa hana við jörðina en það þarf engin gleraugu til að sjá böndin sem halda fátæku fólki niðri, hvernig má það vera að þrettán manns, stundum fleiri, kúldrist á sextán fermetra baðstofulofti, þegar úti skín sól yfir breiðurnar af landi?

Hvernig fer lífið með hinn hláturveika Ívar, hina uppreisnargjörnu Setselju, hina heimspekilega þenkjandi Oddnýju? Skikkjuklæddar formæður ríða á hröðum flótta suður Pollengin og erlendur listmálari finnur engin not fyrir rauða litinn í íslensku landslagi. Og hver verður næst klæddur í fangaskyrtuna?

„Móðurfólk mitt hélt ekki dagbækur sem ég veit af, það afmáði ummerki, gekk svo snyrtilega um að það skildi ekki eftir sig efniskennd spor.

Að skrifa söguna eru því drottinssvik við móðurfólk mitt, einnig skuld við það og þökk.“

Kristín Ómarsdóttir

Kristín Ómarsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This