Ungfrú Ísland

Karlmenn fæðast skáld. Þeir eru um fermingu þegar þeir gangast við því óumflýjanlega hlutskipti sínu að vera snillingar. Það skiptir engu hvort þeir skrifa bækur eða ekki. Konur verða kynþroska og eignast börn sem koma í veg fyrir að þær geti skrifað.

Árið er 1963. Íslendingar eru 177 þúsund og eiga einn Nóbelshöfund. Söguhetja bókar, Hekla, er ung skáldkona sem fædd er á slóðum Laxdælu. Hún heldur til Reykjavíkur með nokkur skáldsagnahandrit í fórum sínum.

Sjötta skáldsaga Auðar Övu fjallar um sköpunarþrána í heimi þar sem karlmenn fæðast skáld og konum er boðið að verða Ungfrú Ísland.

Auður Ava Ólafsdóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir síðustu skáldsögu sína, Ör. Bækur hennar koma út á yfir 20 tungumálum.

Hér má sjá frábært viðtal við Auði Övu í Kiljunni í nóvember 2018.

Kápuhönnun: Ólafur Unnar Kristjánsson, með tilvísun í kápu Gísla B. Björnssonar frá 1962. Með góðfúslegu leyfi.

 

 

Auður Ava Ólafsdóttir

Ég þurfti að pína mig til að lesa hægt, ég gat eiginlega ekki stoppað og mig langaði að gleypa þetta allt í einu. Þetta er dásamlegur texti og frábær bók í alla staði.

 

Hér má lesa gagnrýnina í heild sinni

Sunna Dís Másdóttir

Kiljan

„Í mínum draumaheimi er bara það allra nauðsynlegasta: blað, blekpenni og karlmannslíkami. Þegar við höfum elskast má hann gjarnan spyrja hvort hann geti sett blek á pennann fyrir mig.“

Ungfrú Ísland er fádæma vel heppnuð skáldsaga hjá Auði Övu Ólafsdóttur. (…)

Að mínu viti er Ungfrú Ísland besta bók Auðar Övu, sterkasta skáldsaga þess hluta flóðsins sem ég hef sopið af þegar þetta er skrifað og kröftugasta dystópía íslenskra bókmennta.

 

Þorgeir Tryggvason

Lesskýrsla á Facebook

Þetta er alveg æðislega vel gerð bók. Hún er algjörlega hlutlæg, hún segir okkur aldrei hvernig Heklu líður eða hvað hún er að hugsa. Hún lýsir bara því sem gerist. Þetta nær alveg mögnuðum tökum á manni og býr til þennan óhugnaðarheim sem þrengir að þessu vel gerða og gáfaða fólki á alla enda og kanta.

Þorgeir Tryggvason

Kiljan

Auður Ava skrifar fallegan, fágaðan og ljóðrænan stíl en mikill þungi er þar undirliggjandi. Henni tekst einkar vel að lýsa tíðaranda þar sem ætlast er til að konur séu eiginkonur og mæður og engin ástæða er talin til að sköpunarþrá þeirra og kraftur fái farveg. Þessu kemur höfundur, sem býr yfir miklum mannskilningi, feiknavel til skila án þess að fordæma eða predika. Húmorinn í verkinu er síðan afar vel heppnaður, bæði lúmskur og beittur.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Fréttablaðið

Auður Ava býður upp á allt það besta sem bók­mennt­ir geta boðið upp á; frá­sögn­in geisl­ar af fals­leysi og ljóðrænu í senn en það sem spring­ur þó hvað best út í Ung­frú Ísland er sögu­meist­ar­inn Auður Ava. Vegna sagna­gáf­unn­ar og þess að höf­und­ur get­ur sagt sög­ur eins og sög­ur verða best sagðar, með viðburðum og per­són­um sem vekja til­finn­ing­ar og for­vitni um að vita meira og meira, er Ung­frú Ísland bók sem les­andi svolgr­ar í sig.
Fimm stjörnur!

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Morgunblaðið

Auður Ava hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína Ör. Ungfrú Ísland er líkleg til að afla henni frekari viðurkenninga enda hennar besta verk.

Niðurstaða: Frábær skáldsaga, full af dýpt og ríkum mannskilningi. Verk sem mun lifa.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Fréttablaðið

Pin It on Pinterest

Share This