Rök lífsins
Rannsóknir á lífverum má rekja til fornaldar, sérstaklega til Aristótelesar sem starfaði á 4. öld f.Kr. og hafði meðal annars ákveðnar hugmyndir um erfðir. Þetta voru merkileg upphafsskref en aldirnar liðu án þess að frekar miðaði í átt til skilnings á þeim lögmálum sem ráða innri starfsemi lífvera. Eðli lífsins var ráðgáta. Kenning um þróun lífvera kom fram um aldamótin 1800 og árið 1859 kom út bókin Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin. Góður skilningur á líffræðilegum forsendum þróunar varð þó að bíða blómstrunar erfðafræðinnar á 20. öld.
Í þessari bók er sagt frá nokkrum brautryðjendum líffræðinnar, sérstaklega á sviði erfðafræði, allt frá Aristótelesi til Watsons og Cricks. Jafnframt er sögð saga hugmynda og uppgötvana sem um miðja 20. öld leiddu til byltingar í skilningi manna á eðli lífsins.
Kápuhönnun: Ólafur Unnar Kristjánsson
ISBN: 978-9935-488-28-2
198 bls.
Dr. Guðmundur Eggertsson
Erfðafræðin fór að blómstra um aldamótin 1900, en erfðafræðirannsóknir fólust aðallega í því á þessum tíma, allt fram yfir 1940, að fylgjast með erfðum gena og einkennunum sem þau réðu. Menn vissu að genin voru á litningum í frumukjarna en það vantaði hins vegar þekkingu á efnislegri gerð þeirra og lífefnafræðilegri starfsemi. Á þessu voru lengi vel sáralitlar rannsóknir. Margt var þó vel gert og ber hæst brautryðjendarann-sóknir Morgans á ávaxtaflugunni, sem ég segi frá.
Las um helgina bók Guðmundar Eggetssonar Rök lífsins. Fróðleg og skemmtileg bók um líffræði frá Aristóterlesi til nútímans. Það er heillandi að lesa um hvernig líffræðin og erfðafræðin hafa leyst ýmsar gátur og spurt nýrra spurninga. Hvernig myndaðist líf, hvernig flyst erfðaefni milli kynslóða? Hvað er að gerast í frumunum í líkama mínum? Spennandi lesning.
Hvað knýr Guðmund Eggertsson til að skrifa alþýðurit um sögu erfðafræðinnar, mann sem nálgast háan aldur og á að baki ótal ritsmíðar á háfræðilegum grunni?