Friðgeir Einarsson

Friðgeir Einarsson

Friðgeir Einarsson

Friðgeir Einarsson hefur víða látið að sér kveða, einna helst í sviðslistum og við auglýsingagerð. Hann er höfundur smásagnasafnsins Takk fyrir að láta mig vita og skáldsögunnar Formaður húsfélagsins sem báðar hlutu lofsamlegar viðtökur gagnrýnenda. Hann sendir nú frá sér tólf nýjar smásögur í bókinni Ég hef séð svona áður.

„Friðgeir Einarsson er einhver beittasti stílisti sem komið hefur fram í íslenskum bókmenntum afar lengi.“ – Ágúst Borgþór Sverrisson, DV, 11.11.2016

„Bráðefnilegur, bráðskemmtilegur, bráðklár …“ Kiljan hélt ekki vatni yfir smásagnasafninu

„Svona lifum við. “ – Gunnhildur Jónatansdóttir, Hugrás.is

Serótónín endurupptökuhemlar

Serótónín endurupptökuhemlar

Serótónínendurupptökuhemlar er skáldsaga eftir Friðgeir Einarsson, gefin út af Benedikt bókaútgáfu árið 2023. Verkið fjallar um Reyni, miðaldra fjölskylduföður sem rekur hjólabúð og glímir við þunglyndi. Þrátt fyrir að búa við allar aðstæður til að vera hamingjusamur, finnur hann fyrir djúpri óánægju og ákveður að leita sér hjálpar. Sagan byrjar á heimsókn Reynis til læknis þar sem hann fær ávísað þunglyndislyfjum, og lýsir hvernig hann tekst á við nýja meðferð og tilveru sína.

Friðgeir Einarsson tekst á við hversdagslega angist með sínum ísmeygilega húmor, og dregur upp sannfærandi mynd af kvíða og þunglyndishugsunum Reynis. Innri rödd Reynis, sem birtist í formi niðurrifshugsana, er bæði absúrd og fyndin, sem gefur lesandanum innsýn í flókið hugarástand hans.

Bókin hefur hlotið jákvæðar viðtökur og verið lýst sem „grátbroslegri lýsingu á þunglyndi og kvíða“. Lesendur hafa hrósað henni fyrir einlæga og raunsæja nálgun á viðkvæmt efni, og fyrir að vera bæði tilgerðarlaus og snjöll.

Stórfiskur

Stórfiskur

Íslenskur hönnuður, búsettur á meginlandi Evrópu ásamt konu og dóttur, fær það verkefni að hanna merki fyrir þekkt sjávarútvegsfyrirtæki. Hann slær tvær flugur í einu höggi og snýr aftur til fósturjarðarinnar til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins og leita sér lækninga við torkennilegu meini sem lagst hefur á hendur hans. Hvoru tveggja tekur ívið lengri tíma en til stóð, í og með vegna þess að hönnuðurinn dvelur bíllaus í smáhýsi rétt fyrir utan Borgarnes. 

Stórfiskur fjallar um stóra fiska og minni, í sjó sem og á þurru landi.

 

Ég hef séð svona áður

Ég hef séð svona áður

Ferðalangur leitar að húfu með nafni bæjarins sem hann er staddur í. Sérfræðingur í öldrunarsjúkdómum fer á ráðstefnu sem hún á ekki erindi á. Aðfluttur Reykvíkingur losar sig við byssu. Millistykki í skjávarpa bilar á mikilvægu augnabliki.

Ég hef séð svona áður hefur að geyma tólf nýjar smásögur eftir Friðgeir Einarsson, höfund bókanna Takk fyrir að láta mig vita og Formanns húsfélagsins sem báðar hlutu lofsamlegar viðtökur gagnrýnenda. Friðgeir er einn af forsprökkum hins óviðjafnanlega leikhóps Kriðpleirs.

Kápuhönnun: Ólafur Unnar Kristjánsson

Teikning á kápu: Sigrún Hlín Sigurðardóttir
ISBN: 978-9935-488-02-2
168 bls.

Formaður húsfélagsins

Formaður húsfélagsins

Maður flytur í blokkaríbúð systur sinnar á meðan hann kemur undir sig fótunum.  Þetta átti að vera tímabundin ráðstöfun, en fyrr en varir er húsfélagið lent á hans herðum.

Formaður húsfélagsins fjallar um samlíf ókunnugra, nauðsynlegt viðhald fasteigna og margslungið tilfinningalíf íbúa fjölbýlishúsa.

„Dag einn birtist auglýsing sem vekur athygli mína. Í fyrirsögn er lesandinn spurður hvort hann langi til að verða kvikmyndastjarna. Mig langar ekki til þess en held samt áfram að lesa. Ég kemst að því að það er ekki verið að leita að stjörnum – þær hafa nú þegar verið ráðnar – heldur vantar svokallaða „bakgrunnsleikara“. Ég geri ráð fyrir að með því sé átt við leikara sem heldur sig í bakgrunni. Ég tel mig geta ráðið við það.“

Einnig fáanleg í kilju.

(Isbn 978-9935-488-41-1)

Kápuhönnun: Ólafur Unnar Kristjánsson
ISBN: 978-9935-488-19-0
205 bls.
Útgáfuár: 2017