Auður Ava

Auður Ava

Auður Ava hefur skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og er textahöfundur popphljómsveitarinnar Milkywhale. Hún er margverðlaunuð fyrir skáldsögur sínar sem hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál.Auður Ava hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin, bóksalaverðlaunin og bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Ör.

Skáldsögur

Dj Bambi (Benedikt, 2023)
Eden (Benedikt, 2022)
Dýralíf (Benedikt, 2020)
Ungfrú Ísland (Benedikt, 2018)
Ör (Benedikt, 2016)
Undantekningin (Bjartur, 2012)
Afleggjarinn (Salka, 2007)
Rigning í nóvember (Salka, 2004)
Upphækkuð jörð (Mál og menning, 1998)

Leikrit

Ekki hætta að anda (Borgarleikhúsið, 2015)
Svanir skilja ekki (Þjóðleikhúsið, 2014)
Lán til góðverka (Útvarpsleikhúsið, 2013)
Svartur hundur prestsins (Þjóðleikhúsið, 2012)

Ljóð

Sálmurinn um glimmer (Salka, 2010)

Dansverk

Milkywhale. Danstónleikar á Reykjavik Dance Festival (Tjarnarbíó 2015)

Vakúm. (Tjarnarbíó, 2018) eftir Melkorku Sigríði Magnúsdóttur (danshöfundur), Árna Rúnar Hlöðversson (tónlist) og Auði Övu Ólafsdóttur (texti)

Smásögur

Smáskilaboð frá Katalóníu (Tímaritið Stína, 2009)

Þýðingar

Edenbíóið eftir Marguerite Duras (leikrit, 1994)

Eden

Eden

Eden (2021) gefin út af Benedikt bókaútgáfu. Málvísindakona sem er sérfræðingur í fámennistungumálum ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. Hjá íbúum í nálægu þorpi kviknar óvæntur áhugi á málvísindum. Á fjörur söguhetju rekur handrit að ljóðabók fyrrverandi nemanda hennar sem fjallar um ást ungs karlmanns á eldri konu.

Ég segi ekki neitt en hugsa með mér, hann gat klætt sig sjálfur og beygt orðið kýr.

kýr 

kú 

kú 

kýr 

Þessi áttunda skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur fjallar um mátt orðsins og ábyrgðina sem við berum.

Auður Ava hefur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin, bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og hin virtu Médicis-verðlaun í Frakklandi.

Skáldsögur Auðar Övu hafa verið þýddar á 33 tungumál. 

Dýralíf

Dýralíf

„Konu með mína starfsreynslu kemur fátt á óvart undir sólinni. Það er þá kannski helst maðurinn.“

Sjöunda skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur gerist í vetrarmyrkri, rétt fyrir jól, þegar áður óþekkt lægð er í aðsigi. Á þriðju hæð við Ljósvallagötu býr ljósmóðir í íbúð sem hún erfði eftir einhleypa og barnlausa ömmusystur sína. Upp úr kassa undan Chiquita-banönum koma þrjú handrit sem ömmusystirin vann að, Dýralíf, rannsókn á því sem mannskepnan er fær umSannleikurinn um ljósiðog Tilviljunin.

Dýralíf fjallar um leitina að mennskunni.

Auður Ava hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin (2016) og bókmennta-verðlaun Norðurlandaráðs (2018) fyrir Ör og hin virtu Médicis-verðlaun í Frakklandi fyrir Ungfrú Ísland (2019). Skáldsögur Auðar Övu hafa verið þýddar á 33 tungumál.

Hrífur lesandann með sér inn í myrkrið og þaðan í ljósið.

Maríanna Clara Lúthersdóttir
Víðsjá

Bækur Auðar Övu Ólafsdóttur eru í senn einstaklega íslenskar og sammannlegar.

Financial Times

Bókin er með þeim allra fegurstu sem ég hef lesið […] enda hverfist bókin í kringum fegursta orð tungumálsins …

Ragnhildur Þrastardóttir
Morgunblaðið

Ungfrú Ísland

Ungfrú Ísland

Karlmenn fæðast skáld. Þeir eru um fermingu þegar þeir gangast við því óumflýjanlega hlutskipti sínu að vera snillingar. Það skiptir engu hvort þeir skrifa bækur eða ekki. Konur verða kynþroska og eignast börn sem koma í veg fyrir að þær geti skrifað.

Árið er 1963. Íslendingar eru 177 þúsund og eiga einn Nóbelshöfund. Söguhetja bókar, Hekla, er ung skáldkona sem fædd er á slóðum Laxdælu. Hún heldur til Reykjavíkur með nokkur skáldsagnahandrit í fórum sínum.

Sjötta skáldsaga Auðar Övu fjallar um sköpunarþrána í heimi þar sem karlmenn fæðast skáld og konum er boðið að verða Ungfrú Ísland.

Auður Ava Ólafsdóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir síðustu skáldsögu sína, Ör. Bækur hennar koma út á yfir 20 tungumálum.

Hér má sjá frábært viðtal við Auði Övu í Kiljunni í nóvember 2018.

Kápuhönnun: Ólafur Unnar Kristjánsson, með tilvísun í kápu Gísla B. Björnssonar frá 1962. Með góðfúslegu leyfi.

 

Ör

Ör

„Fæstir drepa, flestir deyja bara.“

Jónas Ebeneser er 49 ára fráskilinn, valdalaus og gagnkynhneigður karlmaður sem hefur ekki haldið utan um bert kvenmannshold – alla vega ekki viljandi – í átta ár og fimm mánuði. En hann er handlaginn. Hann hefur flísalagt sjö baðherbergi og þegar hann leggur af stað í ferðalag sem hann hefur ekki hugsað sér að snúa aftur úr, tekur hann með sér borvél.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2016
Bóksalaverðlaunin 2016
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018

Einnig fáanleg í kilju.

Kápuhönnun: Magnús Leifsson
ISBN: 978-9935-488-00-8
204 bls.
Útgáfuár 2016