Vegur allrar veraldar – skálkasaga
Haustið 1479 kemur kona norður yfir Kjöl og teymir hest undir gömlum manni. Skáldið Sveinn döggskór Þórðarson er kominn í Reynistaðarklaustur til að deyja. Þó ekki fyrr en hann hefur skrásett sannleikann um atburðina í Rifi, þegar Englendingar drápu Björn Þorleifsson, hirðstjóra konungs á Íslandi. Vígið kveikti ófriðarbál innanlands og utan, og kona Björns, Ólöf ríka Loftsdóttir, hefndi bónda síns svo grimmilega að sögur hafa gengið um það allar götur síðan.
En hvað af því er satt og hvað er logið, og hverjum leyfist að segja söguna?
Löngu síðar, á tímum samfélagsmiðla og örbylgjupizza, reynir sagnfræðingurinn Eyjólfur Úlfsson að endurheimta akademískan orðstír sinn eftir að hafa óvart eyðilagt ómetanlegt fornrit. Þær hrakfarir leiða hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann rekur sig eftir ólíkindalegri slóð handrita og miðaldaklæða í átt að sannleikanum um atburðina í Rifi.
Fimmtánda öldin er öldin sem týndist í Íslandssögunni, þegar þjóðin lenti skyndilega í hringiðu evrópskra stjórnmála og viðskiptahagsmuna. Hér stíga helstu persónur hennar ljóslifandi fram: riddarar og sjóræningjar, konungar, hirðstjórar og höfðingjar, en líka fólkið sem þjónaði þeim og reyndi að ávinna sér frelsi og frið á vægðarlausum upplausnartímum.
Vegur allrar veraldar – skálkasaga – er sjálfstætt framhald Hamingju þessa heims – riddarasögu, sem kom út 2022 og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Bækur eftir sama höfund
