Brot – Konur sem þorðu

BROT er saga um lífshlaup þriggja kynslóða kvenna; þeirra Adeline, Ingibjargar og Veru. Líf mæðgnanna spannar 137 ár, frá 1867 til 2004, tímabil stórkostlegra breytinga á nánast öllum sviðum.

 

Þessar þrjár konur voru, hver á sinn hátt, frumkvöðlar í baráttu kvenna fyrir frelsi og jafnrétti; gáfaðar, lærðar og sigldu oftast á móti straumnum.

 

Adeline var einna fyrst kvenna til að gegna kennarastöðu í evrópskum háskóla, Ingibjörg var listmálari og sýndi verk sín í samfloti með Mondrian í París, en flutti síðan með dóttur sína til Reykjavíkur þar sem hún var snyrtivöruframleiðandi á árunum 1933 til 1939, þegar þær mæðgur fluttu til Buenos Aíres. Vera dóttir hennar var einnig listmálari, kennari og þerapisti áður en leiðir hennar og bókarhöfundar lágu saman í Tórínó á Ítalíu.

 

Saga kvennanna er listilega sögð og heimildirnar af ýmsum toga, meðal annars tilfinningaþrungin bréf og dagbækur.

Dóra S. Bjarnason

Það er æðislegt að lesa þessa bók.

Egill Helgason

Kiljan, 6. nóv.

Brotin sem Dóra S. Bjarnason safnar hér saman til að segja sögu þeirra Adeline, Ingibjargar og Veru eru í senn upplýsandi og afskaplega skemmtileg og forvitnileg aflestrar, fortíðin vaknar og lifnar fyrir lesanda og samveran við þessar merkilegu manneskjur er heilmikil og rík gjöf.

Björn Þór Vilhjálmsson

RÚV

Ég fékk slíkt kikk út úr Brot. Konur sem þorðu eftir Dóru S. Bjarnason sem er nýlega komin út hjá bókaforlaginu Benedikt og fjallar um þrjár kynslóðir óvenjulegra kvenna. Meðal þess sem gerir bókina athyglisverða er að þótt þetta sé íslensk ævisaga, gefin út á íslensku af íslenskum höfundi, eru konurnar þrjár staðsettar á mörkum Íslandssögunnar og hins alþjóðlega samhengis (hér koma fyrir persónur með nöfn eins og Ödön Zichy zu Zich sur Vasonykeö). Þær voru allar fæddar annars staðar og í rauninni eyddi engin þeirra löngum tíma á Íslandi.
– Kristín Svava, Bókvit

Kristín Svava

Bókvit

Pin It on Pinterest

Share This