Aðlögun
Ég er gallaða manneskjan
sem man sjaldan tölur
og þar af leiðandi ekki afmælisdaga.
Ég fæ stundum óþol fyrir fólki,
fel karla sem skrifa langlokur á samfélagsmiðla,
þagga niður í spjallþráðum
þar sem saxófónleikarar tjá sig um bókmenntir
og skallapopparar um hagfræði.
Ég skal deila með þér drykkjum,
hrakfallasögum,
ljóðum,
jarðarberjum sem ég ræktaði,
ég skal lána þér dómgreind mína,
leika við barnið þitt og kettina
og skutla þér til Skagastrandar.
En ég get ekki munað hvenær þú átt afmæli.
Þórdís hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010 fyrir fyrstu ljóðabók sína, Leyndarmál annarra, og hefur síðan hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga fyrir
frumsamin og þýdd verk. Aðlögun er hennar sjötta ljóðabók.