Ég hef séð svona áður

Ferðalangur leitar að húfu með nafni bæjarins sem hann er staddur í. Sérfræðingur í öldrunarsjúkdómum fer á ráðstefnu sem hún á ekki erindi á. Aðfluttur Reykvíkingur losar sig við byssu. Millistykki í skjávarpa bilar á mikilvægu augnabliki.

Ég hef séð svona áður hefur að geyma tólf nýjar smásögur eftir Friðgeir Einarsson, höfund bókanna Takk fyrir að láta mig vita og Formanns húsfélagsins sem báðar hlutu lofsamlegar viðtökur gagnrýnenda. Friðgeir er einn af forsprökkum hins óviðjafnanlega leikhóps Kriðpleirs.

 

Kápuhönnun: Ólafur Unnar Kristjánsson
Teikning á kápu: Sigrún Hlín Sigurðardóttir
ISBN: 978-9935-488-02-2
168 bls.

Þótt viðfangsefni sagnanna séu eins og áður sagði hversdagurinn og alúðin við smáatriði gríðarleg þá krauma undir niðri stórar spurningar um tilvist mannsins og jafnvel erindi hans á jörðinni. Það er einhvern veginn eins og þetta nostur við hið smæsta kalli fram hugrenningatengsl við hið hæsta. Forgengileiki mannsins, tengslaleysi hans og firring hanga öll á spýtunni og lesandinn nemur í senn harminn og kómíkina sem felst í samhenginu.

Hér er hægt að nálgast gagnrýnina í heild sinni

Marianna Clara Lúthersdóttir

Bókmenntaborgin

Sögurnar tólf í þessu safni eru ákaflega fimlega smíðaðar og af miklu öryggi. Friðgeir hefur afbragðsgóð tök á smásagnaforminu. Höfundarröddin er þroskuð og yfirveguð, stíllinn látlaus og slípaður.

Hann er næmur höfundur með sérstaka og eftirtektarverða rödd, og það er einstaklega gaman að fylgjast með honum byggja við sterkt og heilsteypt höfundarverk sitt.

Jóladagatal svikaskálda 11. desember 2018

Svikaskáld

Friðgeir er náttúrulega snillingur í að lýsa hversdagsleikanum og gera hann áhugaverðan.
Hann er ótvíræður hæfileikamaður og sögurnar eru allar fínar

Kolbrún Bergþórsdóttir og Sigurður Valgeirsson

Kiljan, RÚV

Ferðalagið er, finnst mér, að verða svona næstum því hversdagslegt í lífi nútíma Íslendingsins. Að fara í einhverja helgarferð eða á einhverja ráðstefnu er bara orðið eins og að fara í Bónus, eða kannski frekar í IKEA eða Costco. Fólk er jafnvel bara spenntara yfir því að fara í Costco en að fara til Kaupmannahafnar, liggur við.

Það dreymir engan um svifryks-tjörudrullu

Friðgeir Einarsson

Viðtal í Víðsjá, RÚV

Pin It on Pinterest

Share This