Alexander Dan

Rithöfundurinn Alexander Dan Vilhjálmsson býr í Reykjavík. Hrímland er fyrsta skáldsaga hans en með henni skipaði hann sér sess sem einn helsti furðusagnahöfundur landsins af yngri kynslóðinni. Hún kemur brátt út hjá einu virtasta fantasíuforlagi heims, Gollancz. Alexander er útgefandi og ritstjóri tímaritsins Furðusögur sem tileinkað er vísindaskáldskap og fantasíubókmenntum. Það er fyrsta tímarit sinnar tegundar á Íslandi. Ásamt ritstörfunum semur Alexander texta fyrir „black metal“ sveitina Carpe Noctem þar sem hann þenur einnig raddböndin sem forsöngvari.